Björgólfur Thor Björgólfsson fagnaði nýverið 40 ára afmæli sínu á eyjunni Jamaíka, ásamt vinum og vandamönnum. Thor, eins og hann er kallaður, hefur ærna ástæðu til að vera kátur. Hann er fyrsti milljarðamæringur Íslands, en auðæfi hans, sem hann hefur byggt upp í gegnum fjárfestingar í fjármálafyrirtækjum, lyfjafyrirtækjum og fjarskiptafyrirtækjum, hafa skilað honum í 249. sæti á lista Forbes tímaritsins yfir ríkasta fólk í heimi, en eigur hans eru þar metnar á 3,5 milljarða Bandaríkjadala.

Á undanförnum mánuðum hefur Björgólfur verið að vinna í átt að því að losa sig við einhverjar eigna sinna á fjarskiptamörkuðum. Svo gæti farið að hann selji hlut sinn í BTC í Búlgaríu og hann hefur þegar selt annað stærsta fastlínu fjarskiptafyrirtæki Tékklands, en það var í nóvember síðastliðnum.

Eftir að hafa lært viðskiptafræði í New York University setti hann á fót bruggverksmiðju í Rússlandi á síðari hluta tíunda áratugarins. Tenging hans við íslenskt viðskipta- og stjórnmálalíf aðstoðaði svo við að halda rússnesku mafíunni í skefjum, en Björgólfur var opinber fulltrúi Íslands í norðvestur Rússlandi. "Fólk hugsar sig tvisvar um áður en það fer að atast í ríkisstjórnarfulltrúum," segir Björgólfur.

Þegar Heiniken keypti svo bruggverksmiðjuna árið 2002, fékk hann 100 millónir Bandaríkjadala í vasann og var það grundvöllurinn að síðari fjárfestingum hans.

Hann tímasetti ingöngu sína á fjarskiptamarkaðinn vel, en hann hóf fjárfestar í geiranum eftir að fjarskiptabólan hafði sprungið árið 2001 og markaðir hríðfallið. Þá var hann tilbúinn til að skoða markaði í mið- og austur Evrópu, sem þóttu ekki spennandi markaðir þá. "Við höfum reynt að skilja okkur frá hópnum, við reynum að fara þangað sem aðrir fara ekki," segir hann.

Fjárfestingin í Tékklandi var sú fyrsta, en árið 2003 keypti hann 72% hlut í Ceske Radiokomunikace, af samsteypu sem Deutcshe Bank og TeleDanmark fóru fyrir. Því næst hófst hann handa við að kaupa út minnihlutaeigendur, sem var umdeilt og tók lengri tíma en hann hafði gert ráð fyrir. Þegar upp var staðið hafði hann keypt hlutinn á 300 milljónir evra, en seldi hann svo á 1,2 milljarða evra í nóvember síðastliðnum. Björgólfur hagnaðist um 560 milljónir evra í þeim viðskiptum.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.