Fjármögnunarsamningar atvinnutækja eru í raun lán en ekki leigusamningar. Þennan úrskurð felldi Hæstiréttur í gær í máli Íslandsbanka gegn AB 258 ehf sem áður hét Kraftvélaleigan. Vist má telja að úrskurðurinn muni draga dilk á eftir sér, þar sem nú mun þurfa að endurreikna fjölda slíkra samninga.

Í samantekt dómsins segir: „Hæstiréttur taldi að þegar ákvæði sérstakra og almennra skilmála samningsins væru virt í heild yrði að telja að þótt samningurinn væri nefndur fjármögnunarleigusamningur væri það heiti nafnið tómt. Yrði að líta svo á að í raun hefði G hf. veitt K ehf. lán til kaupa á vinnuvél, sem bankinn hefði kosið að klæða í búning leigusamnings. Var því lagt til grundvallar að samningurinn væri lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001.“ 

Íslandsbanki sendi í gær frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að dómurinn muni ekki hafa áhrif á stöðu bankans eða fjármögnunarfyrirtækisins Ergo sem er í eigu bankans. Þar segir: „Íslandsbanki telur að varúðarreikningur bankans standi undir þeirri niðurstöðu sem í dag var staðfest í Hæstarétti. Enn á þó eftir að greina að fullu áhrifin af  niðurstöðu dómsins.  Eiginfjárhlutfall bankans er 28%, sem er vel fyrir ofan það 16% lágmark sem Fjármálaeftirlitið setur. Íslandsbanki er því vel í stakk búinn til að takast á við hugsanleg áhrif dómsins.“