Bjarni Bendiktsson, fjármálaráðherra, hefur litlar áhyggjur af hinni svokölluðu Íslandsvakt sem sett var á laggirnar af hugarveitunni Institute For Liberty í þeim tilgangi að beina athygli á meintum brotum á réttindum aflandskrónueigenda. Fjallað var um vaktina þegar hún var sett á laggirnar á vef Viðskiptablaðsins .

„Við erum orðin býsna vön því að það sé sótt að okkur úr ýmsum áttum allt frá því að við vorum að glíma við slitabúin og afnám hafta af þeim,“ sagði Bjarni í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við höfum stöðugt fundið fyrir því að það er reynt að koma á framfæri sjónarmiðum þar sem reynt er að grafa undan áformum stjórnvalda á Íslandi í þessu efni og það ætti heldur ekki að koma neinum á óvart vegna þess hversu miklir fjárhagslegir hagsmunir eru undirliggjandi.“

„En fram til þessa höfum við staðist ítrustu skoðun allra erlendra aðila og ég minni á það að eftir að við kynntum síðustu breytingar í þessum efnum fengum við jákvæð viðbrögð frá matsfyrirtækjunum. Þetta hefur ekki orðið okkur tilefni til að hafa miklar áhyggjur.“