Ingvi Þór Elliðason hefur verið forstjóri Capacent frá árinu 2008 og lengst af starfað á sviði ráðgjafar. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið stöðuna ekki hafa verið góða á þeim tíma og var eigið fé fyrirtækisins uppurið eftir efnahagshrunið. „Í samvinnu við bankann tókst okkur þó að halda sjó um sinn. Haustið 2010 var hins vegar útséð um að það tækist að halda rekstrinum áfram án niðurfellingar skulda og stofnuðu þá um 50 starfsmenn Capacent nýtt fyrirtæki og keyptu vörumerki og rekstur þess gamla,“ segir Ingvi en hann hafði áður stýrt ráðgjafasviði Capacent, þar áður verið hópstjóri á ráðgjafarsviðinu.

„Ég lauk námi í iðnaðartæknifræði árið 1992 en áður hafði ég sinnt ýmsum störfum og m.a. unnið sem rafvirki. Að loknu námi fór ég að vinna hjá KPMG við alls kyns ráðgjöf, uppgjör fyrirtækja og fleira. Smám saman varð til sérstakt ráð- gjafarsvið innan KPMG og árið 2000 var fyrirtækið KPMG ráðgjöf stofnað. Við vorum þrír starfsmenn sem keyptum svo þetta 20 manna ráðgjafarfyrirtæki af KPMG árið 2004. Í kjölfarið sameinuðust KPMG ráðgjöf og IMG, sem þá var öflugt þekkingarfyrirtæki í rekstr- arráðgjöf, ráðningum og markaðsrannsóknum. Sameinað fyrirtæki fékk nokkru síðar nafnið Capacent.“

Ráðgjafarfyrirtækin dafna vel

Ingvi segir að tiltrú manna á rekstrar- og stjórnunarráðgjöf hafi verið veik þegar hann byrjaði í ráðgjöf og fáir hafi haft trú á því að fyrirtæki sem sérhæfði sig í ráðgjöf myndi eiga framtíð fyrir sér á Íslandi. „Þegar við félagarnir vorum að byrja að byggja upp ráðgjöf hjá KPMG sagði einn af yfirmönnum okkar: Ingvi, bara svo það sé á hreinu þá er ráðgjöf ekki, hefur aldrei verið og verður aldrei bisness á Íslandi. Svona voru viðhorfin fyrir ekki svo löngu. Nú er staðan hins vegar sú að Capacent og mörg önnur ráðgjafarfyrirtæki dafna vel og gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi,“ segir Ingvi.

Ingvi segir það hafa ekki verið á stefnuskránni af hans hálfu að taka við forstjórasætinu á sínum tíma en hann hafi þó ákveðið að láta til leiðast þegar leitað var til hans og óskað eftir hans kröftum. „Ég ákvað að slá til og ég vissi að mikil ábyrgð fælist í því að reka 100 manna vinnustað við slíkar aðstæður. Á þessum tíma var ég leið í fæðingarorlof en það hefur nú ekki enn orðið af töku þess,“ segir Ingvi.

Rætt er við Ingva í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .