Lækkun á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í erlendri mynt virðist ekki hafa mikil áhrif á lánskjör á alþjóðamörkuðum enn sem komið er, segir greiningardeild Glitnis.

?Fyrir mánuði síðan gaf ríkissjóður út skuldabréf í evrum í þeim tilgangi að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans. Bréfinu var auk þess ætlað að mynda viðmiðunarvexti í evrum fyrir íslensk skuldabréf. Frá útgáfudegi hefur krafa bréfsins hækkað úr rúmlega 3,8% í tæplega 4,1%.

Þessi hækkun endurspeglar þó hækkandi vexti í evrum en ekki aukið álag á vexti skuldabréfsins umfram viðmiðunarvexti. Það álag hefur haldist lítið breytt og er nú u.þ.b. 0,16 prósentustig,? segir greiningardeildin.

Hún segir að svipaða sögu sé að segja af mati erlendra aðila á greiðsluhæfi íslensku bankanna. ?Verð á greiðslufallstryggingum (CDS) þeirra hefur ekki hækkað í kjölfar lækkunar S&P á lánshæfismati ríkissjóðs. Hér ber vitaskuld að hafa í huga að lánshæfiseinkunn Glitnis var ekki breytt á föstudag en hann er eini íslenski bankinn sem S&P gefur einkunn.

Þrátt fyrir það hefur verð á CDS bankanna verið næmt fyrir skoðun matsfyrirtækja á lánshæfi ríkissjóðs eins og glögglega kom fram fyrr á árinu. Þá hækkuðu CDS bankanna snarpt eftir að Fitch breytti horfum fyrir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í neikvæðar þótt fyrirtækið staðfesti samhliða lánshæfiseinkunn bankanna. Erlendir fjárfestar virðast því taka fréttum föstudagsins með stóískri ró, öfugt við viðbrögð þeirra fyrr á árinu,? segir greiningardeildin.