Sigurður Helgi Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eirar hefur endurgreitt Eir andvirði 200 þúsund króna gjafabréfs frá Icelandair sem hann gaf dóttur sinni og tengdasyni í fyrra. Kom þetta fram í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld.

Hann gerir grein fyrir endurgreiðslunni í bréfi til stjórnar Eirar, en formaður stjórnar Eirar vill ekki upplýsa hvað kemur fram í bréfinu. Sigurður lét Eir borga gjafabréfið. Engin gögn eða skýringar í bókhaldi Eirar réttlættu þennan gjörning Sigurðar og taldi Ríkisendurskoðun því að honum hafi verið þetta óheimilt.

Stjórn Eirar ákvað að gefa Sigurði Helga kost á að ljúka málinu með því að endurgreiða andvirði gjafabréfsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV hefur Sigurður endurgreitt Eir fleira en bara gjafabréfið og gerir hann grein fyrir þeim endurgreiðslum í bréfi sem hann sendi stjórn Eirar í gær.