Ólafur Ólafsson, sem var yfirheyrður á fyrri hluta ársins 2009 sem vitni vegna aðkomu sinnar að viðskiptum Sjeik Mohamed Bin Khalifa Al-Thani við Kaupþing, segist ekki hafa neina skoðun á þeim sakargiftum sem fyrrum stjórnendur Kaupþings standa frammi fyrir.  Ólafur var milligöngumaður í viðskiptum Kaupþings við Al-Thani.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagðist hann ekki hafa verið boðaður í neins konar yfirheyrslu síðan þá en bætir við að málið hafi valdið sér miklum skaða og að það hafi haft afar neikvæð áhrif á ákveðin viðskiptasambönd sín.

Aðspurður hvaða skoðun hann hafi á þeim sakargiftur sem fyrrum stjórnendur Kaupþings standa  frammi fyrir er svar Ólafs einfalt: „ég hef enga skoðun á því.“

Grunur um lögbrot í tengslum við Al-Thani viðskiptin

Nokkrir fyrrum stjórnendur Kaupþings eru grunaðir um fjölmörg lögbrot. Þeirra á meðal eru markaðsmisnotkun, umboðssvik, skjalafals og önnur skjalabrot og ýmis brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga. Á meðal þeirra mála sem embætti sérstaks saksóknara er að rannsaka eru lánveitingarnar til Sjeik Al-Thani.

Þeir sem vitað er um að hafa fengið réttarstöðu grunaðra manna í rannsókninni eru Hreiðar Már, Sigurður, Magnús Guðmundsson (fyrrum forstjóri Banque Havilland), Ingólfur Helgason (fyrrum forstjóri Kaupþings á Íslandi) og Steingrímur Kárason (fyrrum framkvæmdastjóri áhættustýringar bankans).  Þá hefur öll fyrrum framkvæmdastjórn Kaupþings verið yfirheyrð auk ákveðinna starfsmanna eigin viðskipta og verðbréfamiðlunar bankans.