„Ég veit, af persónulegum kynnum, að endurskoðendur þeirra banka sem hrundu unnu sitt starf af samviskusemi og í takt við lög og reglur sem gilda um starf þeirra. Ég trúi því ekki að menn hafi vísvitandi verið að draga upp falska mynd af stöðu bankanna," segir Guðmundur Snorrason endurskoðandi og einn eigenda PwC. Hann er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. fimmtudag.

Um hrun bankanna, og aðgerðir sem gripið var til innan bankanna, segir Guðmundur m.a.:

"Ég trúi því líka að stjórnendur bankanna hafi reynt, að minnsta kosti í langflestum tilvikum, að bjarga bönkunum með aðgerðum sem kannski líta illa út eftir á. Eflaust hafa menn ætlað að freista þess að komast í gegnum erfiðar aðstæður með tímabundnum aðgerðum og vonast til þess að markaðsaðstæður myndu breytast. Ég trúi því tæplega að menn hafi viljandi verið að grípa til refsiverðrar háttsemi til þess að bjarga eigin skinni, heldur frekar verið að bregðast við mjög óvenjulegu árferði. Það var þrennt sem einkum gerði árferðið óvenjulegt. Lokaðir lánamarkaðir erlendis, fall krónunnar og hrun á hlutabréfamarkaði. Á mjög skömmum tíma voru eignir, þ.e. útlán m.a., að verða verðlausar og staða íslenska bankakerfisins að veikjast dag frá degi. Góð staða gat þannig orðið vond á ótrúlega skömmum tíma. Það er í þessu andrúmi sem endurskoðendur störfuðu þegar kom að endurskoðun ársreikninga, m.a. fyrir árið 2007.

Endurskoðendur gátu ekkert annað gert en að fylgja lögum og reglum í hvívetna. Ég er viss um að þeir hafi gert það, og veit að þannig var það í tilfelli PwC. Staða þeirra sem tóku lán var líka að breytast hratt. Ársreikningar þeirra gáfu hins vegar ekki alltaf til kynna að mikil vandræði væru að skapast, og það eru grundvallargögn sem endurskoðendur horfa til þegar virði útlána eru metin, þ.e., hvernig lántakinn stendur. En þrátt fyrir þessar óvenjulegu aðstæður verður öll háttsemi sem beinlínis samrýmdist ekki lögum auðvitað að fá að fara sína leið í réttarkerfinu og fá vandaða málsmeðferð.“