Þýska flugfélagið Lufthansa mun hefja flug til 20 áfangastaða um miðjan júní, þar á meðal til sumarleyfisstaða sem njóta mikilla vinsælda, líkt og Mallorca, Krít, Ibiza og Malaga. Reuters greinir frá.

Félagið, sem hefur að undanförnu átt í viðræðum við þýsk stjórnvöld um 9 milljarða evru stuðningspakka, segir að endanlegt fyrirkomulag muni liggja fyrir í lok næstu viku. Fyrir tæpum tveimur vikum greindi flugfélagið frá áformum um að hefja flug til Los Angeles, Toronto og Mumbai í júní.

Líkt og önnur flugfélög þá neyddist Lufthansa til að leggja niður nær allt millilandaflug sitt vegna kórónuveirunnar, en nú vinnur félagið að því að byggja leiðarkerfi sitt upp á nýjan leik.