„Við finnum að leiðtogaprófkjörið náði að skapa umræðu um borgarmál og ég finn mikinn byr í seglum í þá átt að það þurfi að breyta um meirihluta,“ segir Eyþór L. Arnalds, en hann mun leiða lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum sem er að bæta við sig í borginni .

„Ég er sannfærður um að við eigum mikið inni því eftir því sem meira er rætt um borgarmál þá sér fólk að það er meira sem þarf að breyta.“

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun sýnir skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir blaðið að tekið er að saxast á meirihluta Samfylkingar, Pírata, VG og Bjartrar framtíðar í borginni, en síðastnefndi virðist alveg þurkast út.

Eyþór segir að á endanum muni kosningarnar snúast um það hvort umferðin sé betri eða verri en hún var fyrir fjórum árum, hvort auðveldara sé að eignast eða leigja húsnæði en fyrir fjórum árum og hvort árangur hafi náðst í skóla og velferðarmálum.

„Þegar þetta er metið er ég sannfærður um að fólk vilji breyta um kúrs,“ segir Eyþór, sem hefur útilokað samstarf við Samfylkinguna. „Ég hef fulla trú á að þessi meirihluti falli í vor,“ segir Eyþór.