*

laugardagur, 26. september 2020
Innlent 25. janúar 2020 09:01

Hefur fulla trú á MAX

Forstjóri Icelandair segir að félagið hafi verið undirbúið fyrir að kyrrsetning MAX vélanna gæti dregist á langinn.

Ástgeir Ólafsson
Bogi segir Icelandair hafa fulla trú á MAX vélunum.
Eva Björk Ægisdóttir

Icelandair greindi aðfaranótt miðvikudags frá því að félagið gerði ekki ráð fyrir Boeing 737 MAX vélum félagsins yfir háönn sumarsins en áður hafði verið gert ráð fyrir þeim í maí. Tilkynningin kom í kjölfar þess að Boeing hafði nokkrum klukkutímum áður greint frá því að aflétting á kyrrsetningu vélanna myndi dragast að minnsta kosti fram á mitt sumar, þremur mánuðum seinna en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Þegar MAX vélarnar voru kyrrsettar í mars á síðasta ári hafði Icelandair þegar fengið 6 af þeim 16 vélum sem áætlað var að kæmu inn í flota félagsins til ársins 2021. Félagið átti svo að fá þrjár vélar til viðbótar í maí á síðasta ári auk þess sem fimm áttu að bætast við á þessu ári. Það er því ljóst að Icelandair mun verða án samtals 14 véla sem upprunalega var gert ráð fyrir.

Icelandair var fyrst allra flugfélaga í heiminum til að greina frá aðgerðum vegna tilkynningar Boeing. Spurður hvort Icelandair hafi verið með aðra áætlun tilbúna ef kyrrsetning vélanna myndi dragast enn frekar á langinn, segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, að svo hafi verið.

Eins og kemur fram í tilkynningunni þá vorum við búin að undirbúa okkur undir að kyrrsetningin gæti dregist á langinn. Við vorum búin að draga úr áhættunni í leiðakerfinu með uppstillingu á háönninni og með því að leigja inn vélar, þannig að við vorum með varaáætlun tilbúna. Samt sem áður vorum við fram á gærdaginn að gera ráð fyrir að vélarnar færu í loftið í maí.“

Skýrist á fyrri helmingi ársins 

Í uppgjöri Icelandair fyrir fyrsta ársfjórðung síðasta árs kom fram að hafin væri endurskoðun á langtíma flotastefnu félagsins. Að sögn Boga hefur tilkynningin í gær engin áhrif á þá vinnu. „Það liggur ekki fyrir hvenær sú vinna klárast en stefnum á að koma með niðurstöður á fyrri helmingi þessa árs.

Spurður hvort Icelandair hafi enn trú á MAX vélunum eftir allt sem á undan er gengið segir Bogi að svo sé.

„Við höfum fulla trú á vélunum. Það er mjög vandað og yfirgripsmikið ferli í gangi þótt það hafi ýmislegt komið upp á. Við höfum hins vegar fulla trú á því að vélarnar fari að fljúga í okkar leiðakerfi þegar líða fer á árið.“

Nánar er rætt við Boga í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

Stikkorð: Boeing Icelandair 737 MAX