Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra afhenti í dag Guðbirni Magnússyni viðurkenningarskjal fyrir ómetanlegt framlag í þágu sjúklinga og íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Guðbjörn hefur gefið blóð 175 sinnum sem er oftar en nokkur annar Íslendingur, eftir því sem fram kemur á vef heilbrigðisráðuneytisins.

„Guðbjörn kom í ráðuneytið síðdegis til að taka við skjalinu úr hendi heilbrigðisráðherra, ásamt Ólafi Helga Kjartanssyni, formanni Blóðgjafafélags Íslands. Blóðgjafafélagið heiðrar árlega þá sem ná tilteknum fjölda blóðgjafa og í reglum félagsins eru tilgreindar viðurkenningar fyrir 125 skipti og fyrir 150 skipti. Engar reglur ná hins vegar yfir jafnmikla gjafmildi og Guðbjörn hefur sýnt en samkvæmt lauslegum útreikningum hefur hann gefið blóð sem svarar þyngd hans sjálfs,“ segir á vef ráðuneytisins.