Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir talsverðum gengishagnaði af erlendu hlutabréfasafni Kaupþings og tilgreinir greiningardeildin sérstaklega hlut Kaupþings í Storebrand og gerir ráð fyrir verulegum hagnaði þar.

Gengi Storebrand er nú í kringum 80 en áður en Kaupþing flaggaði stöðu sinni í haust var gengið í kringum 71. Kaupþing hefur flaggað 7,82% stöðu í Storebrand og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins má því gera ráð fyrir að gengishagnaður sé vel á annan milljarð króna.

Í skýrslu greiningardeildar Landsbankans um hlutabréfamarkaðinn var bent á að Kaupþing hefur jafnt og þétt verið að minnka hlutfall innlendra hlutabréfa af  heildarstöðu hlutabréfaeignar bankans.

Greiningardeild Landsbankans á ekki von á hagstæðum fjórðungi hjá Kaupþingi á innlendum hlutabréfum, m.a. vegna umtalsverðrar lækkunar á gengi Exista fram að arðgreiðslu og einnig vegna lækkunar á bréfum Mosaic en Kaupþing er stór hluthafi þar.