Hann er 44 ára ástralskur háskólamaður og milljarðamæringurinn sem stofnaði Bitcoin -kerfið heimsfræga - eða hvað?

Craig Steven Wright er nafnið á allra vörum í rafmiðlasamfélaginu þessa dagana. Aðeins klukkustundum eftir að Wired Magazine birti grein sem lýsti honum sem líklegasta manninum til að vera Satoshi Nakamoto, huldupersónunni sem stofnaði Bitcoin, gerði ástralska lögreglan húsleit á heimili Wright.

Lögreglan segir húsleitina hafa verið í tengslum við rannsóknir á skattsvikamálum tengdum Wright.

Hefur skrifað um Bitcoin frá 2008

Umfjöllun Wired segir að Wright hafi verið viðriðinn ýmis konar hluti varðandi rafmiðilinn allt frá árinu 2008. Heimildafólk náið Wright byrjaði að leka gögnum um hann og frá honum í miðjum nóvember síðastliðnum sem tengir hann við Bitcoin heil 7 ár aftur í tímann.

Minnst er á bloggpóst Wright í ágúst árið 2008 þar sem Wright talar um að birta ritgerð um rafmiðla. Einnig má finna á blogginu PGP-lykil (auðkenningarkóði sem er notaður í sambandi við Bitcoin) sem er tengdur við póstfangið [email protected], en netfangið sem hinn raunverulegi nakamoto notaði til að birta ritgerð sína um Bitcoin var [email protected].

Önnur heimild af bloggi Wright sem hefur nú verið eytt er sú að janúar 2009 skrifar hann um að „beta-útgáfan af Bitcoin fari í loftið á morgun. Þetta er ómiðstýrt... við prófum þar til það virkar.“ Ósendir tölvupóstar til áströlsku ríkisstjórnarinnar þar sem Wright skrifar undir sem Satoshi Nakamoto hafa einnig lekið til fjölmiðla.

Lygari eða snillingur?

Þrátt fyrir yfirþyrmandi vísbendingar og gögn sem benda til þess a Wright sé með sanni hinn eftirsótti Nakamoto er enn óvíst hver það er í rauninni - hann er bara sá líklegasti eins og stendur.

Ekki er ómögulegt að maðurinn hafi skipulagt alla atburðarásina í þaula og sé höfuðpaur mikilfenglegrar fjöldaginningar.