Hrun krónunnar undanfarna daga gæti að sögn markaðsaðila haft áhrif á vaxtaákvörðun Seðlabankans sem verður birt á morgun en gengisvísitalan stendur nú í 220 stigum. Greiningaraðilar hafa flestir spáð eins prósents lækkun með hugsanlegri tilkynningu um annan vaxtadag fljótlega. Ljóst er þó að lækkun krónunnar gengur þvert á áætlun bankans.

Sérfræðingar hjá IFS ráðgjöf greina frá því í nýrri skýrslu að þeir reikni með að Seðlabankinn muni lækka stýrivexti um 100-150 punkta á morgun en í samtali við Viðskiptablaðið fyrir stundu var Snorri Jakobsson, sérfræðingur hjá IFS, helst á því að neðri mörkin yrðu fyrir valinu. IFS gerir ráð fyrir að sjónarmið um stöðugleika muni ráða miklu um ákvörðun Seðlabankans. Á móti vegur þó lækkandi verðbólga og hratt vaxandi atvinnuleysi.

Greining Íslandsbanka hafði áður spáð eins prósents lækkun.

Í skýrslu sinni bendir IFS ráðgjöf á að gengi krónunnar hefur sveiflast fram og til baka frá áramótum. Veiking krónunnar hófst 13. mars eða stuttu fyrir vaxtagjalddaga RIKB10-0317.  Mikið útflæði var vegna vaxtagreiðsla í mars og er bent á í skýrslunni að vaxtagreiðslur vegna innstæðubréfa, ríkisvíxla og ríkisbréfa hafi numið 7,8 milljörðum í mars.

„Ómögulegt er að segja hversu stór hluti af framangreindum vaxtagreiðslum leitar úr landi en ljóst er að miðað við veltu á millibankamarkaði með gjaldeyri þarf ekki stórar fjárhæðir til að veikja gengi krónunnar verulega," segir í skýrslunni.