„Ég er búin að vera háseti á Helgu Maríu AK frá Akranesi í tæp tvö ár samfleytt núna en fyrsti túrinn minn þar um borð var árið 1997,“ segir Kristín Stefánsdóttir í samtali við Fiskifréttir. Hún fór í sína fyrstu veiðiferð fimmtán ára gömul.

Kristín Stefánsdóttir.
Kristín Stefánsdóttir.

Kristín er fædd í Grindavík og af sjómönnum komin. Hún segist kunna mjög vel við sig á sjó og að starfið henti sér mjög vel. „Mér þykir eitthvað ævintýralegt við að vera úti á sjó og lífið um borð er sérstakt samfélag út af fyrir sig.“ Hún segist upplifa ákveðna auðmýkt og frið um borð og líka ákveðið öryggi. Tekjurnar dragi heldur ekki úr.

„Sjómennska hefur verið hefðbundið karlastarf og mér finnst vera forréttindi að hafa fengið að umgangast karlmenn á þeim forsendum í gegnum sjómennskuna. Ég tel mig hafa kynnst hugarheimi karlmanna og finn að þeir bera jafnmikla virðingu fyrir þér og þú berð fyrir sjálfri þér. Ég hef aldrei fundið fyrir neinum leiðindum eða veseni út af því að ég er kona til sjós.“

Hægt er að lesa meira um reynslu Kristínar í Fiskifréttum, sem fylgir með Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.