Bolli Héðinsson, hagfræðingur hjá Háskólanum í Reykjavík, segist hafa mikla samúð með Seðlabanka Íslands, þegar hann er inntur álits á framkvæmd peningamálastefnu Seðlabankans. Þau tæki sem bankinn hafi til að stýra því sem honum hefur verið falið að stýra séu býsna fá.

„Það er mjög erfitt að sjá að hann hafi tækifæri til að gera nokkuð annað en að halda áfram á þessari braut nema eitthvað annað og stórkostlegra gerist, svo sem að ákvörðun verði tekin um að leggja niður krónuna,“ svarar Bolli enn fremur þegar hann er spurður hvort bankinn sé á réttri leið.

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að skipta þurfi um stjórn bankans og setja fagmenn yfir stjórn peningamála, hvað viltu segja um það?

„Í bankastjórn eru tveir fagmenn sem eru aldir upp innan bankans og einn pólitískur. Spyrja má hver áhrif fagmannanna séu. Maður hefur á tilfinningunni að þeir ráði ekki stefnunni heldur sá sem situr í þriðja sætinu, aðalbankastjórinn. Þetta er því ekki spurning um menntun og reynslu heldur líka að fá tækifæri og völd.“

Myndirðu vilja breyta yfirstjórn bankans?

„Ég held að fagmennska komi alls staðar að bestum notum en í sviptivindum síðustu missera hljóta Íslendingar að hugsa vandlega sinn gang og hvort þetta sé ástand sem við viljum búa við til langrar framtíðar.“