Rússneski seðlabankinn hefur viðurkennt að hafa varið um 4,5 milljörðum dala á gjaldeyrismörkuðum í síðustu viku til að verja rúbluna falli, að því er segir í frétt BBC . Alls hefur bankinn varið um 70 milljörðum dala, andvirði um 8.700 milljarða króna, til styrkingar gengis rúblunnar það sem af er árinu.

Rúblan hefur verið undir miklum þrýstingi vegna lækkunar olíuverðs og hefur Alþjóðabankinn sagt að hækki olíuverð ekki að nýju muni rússneska hagkerfið dragast saman um 0,7% á næsta ári.

Refsiaðgerðir Vesturveldanna vegna innrásar Rússlands í Úkraínu hafa einnig haft neikvæð áhrif á rúbluna og rússneska hagkerfið. Búist er við því að rússneski seðlabankinn muni hækka stýrivexti sína verulega til að styðja við gengi rúblunnar og til að koma böndum á verðbólgu, sem komin var í 9,1% í nóvember.