Yfirskattanefnd hafnaði nýverið kröfu manns sem vildi fá ógilda ákvörðun ríkisskattstjóra um að honum yrði gert að greiða fjármagnstekjuskatt af 27 milljóna króna sölu rafmyntarinnar Bitcoin árið 2016.

Maðurinn andmælti því að honum bæri að greiða skatt af sölunni sem yfirskattanefnd féllst ekki á. Í úrskurðinum kemur fram að maðurinn hafi grafið eftir rafmyntinni sem þegar hann bjó í Bandaríkjunum á árunum 2009 og 2010, í árdaga rafmyntarinnar. Hann hafi litið á námugröftinn sem tómstundariðju þar sem hann hafi þurft að leysta stærfræðiþraut til að komast yfir myntina.

Í fjárfestingum er flest augljóst eftir á og endalaust hægt að velta upp spurningum um ef og hefði. Sé sá leikur leikinn má áætla að virði rafmyntarinnar sem maðurinn seldi árið 2016 sé að minnsta kosti eins milljarðs króna virði enda hefur Bitcoin margfaldast í verði síðan líkt og Gísli Már Gíslason, sérfræðingur hjá Hagstofunni, bendir á á Twitter.

Ekki liggur fyrir hvenær á árinu 2016 maðurinn seldi rafmyntina. Frá upphafi til loka ársins 2016 hækkaði Bitcoin úr ríflega 400 dollurum í um 1.000 dollara.

Árið þar á eftir, eða árið 2017, fór verð á Bitcoin á flug og fór hæst í 19.000 dollara. Því hefði maðurinn hugsanlega geta selt sömu rafmynt fyrir um hálfan milljarð króna hið minnsta sé miðað við að hann hafi selt hana þegar verð á Bitcoin stóð í 1.000 dollurum árið 2016.

Undanfarið ár hefur Bitcoin verið á flugi á ný og stendur nú í um 42.000 dollurum. Það þýðir að rafmyntin sem maðurinn seldi á 27 milljónir króna árið 2016 er að minnsta kosti milljarðs króna virði í dag og hugsanlega yfir tveggja milljarða króna virði eftir því hvenær maðurinn seldi.

Í úrskurðinum kemur fram að seljandinn hafi nýtt ágóðan til þess að kaupa sér fasteign. Vísitala fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 53% frá árinu 2016. Hafi maðurinn keypt fasteign á 27 milljónir króna má áætla að hún sé nú 41 milljón króna virði.