Donald Trump, forseti Bandaríkjanna hefur rætt það að reka Jerome Powell úr stóli seðlabankastjóra Bandaríkjanna eftir vaxtahækkanir hans á árinu og þá sérstaklega þá síðustu frá því á miðvikudaginn. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg sem vísa í fjóra heimildamenn.

Í fréttinni kemur fram að ráðgjafar Trump séu þó ekki fullvissir um að yfirmaður þeirra myndi láta verða af því að reka Powell og vonast til þess að reiðin renni af forsetnanum yfir hátíðirnar. Þá hafa sumir ráðgjafar varað Trump við því að brottrekstur Powell væri glórulaus ákvörðun.

Samkvæmt frétt Bloomberg gæti ákörðun um að reka Powell haft áhrif um alla fjármálamarkaði og vega stórlega að sjálfstæði bankans, þá er heldur ekki fullkomalega ljóst hvort Trump hafi á annað borð vald til þess að reka seðlabankastjóra úr starfi. Brottreksturinn myndi einnig koma í kjölfarið á mjög erfiðu hausti á mörkuðum en S&P 500 vísitalan lækkaði um 7,1% í vikunni sem var mesta lækkun í einni viku frá 2011.

Eins og áður segir hækkaði Seðlabanki Bandaríkjanna vexti stýrivexti sýna í 2,5%. Var þetta í fjórða skiptið á árinu sem peningastefnunefndin hækkaði vexti.