Nær allar stærri eignir Hildu ehf., sem er í fullri eigu Eignasafns Seðlabanka Íslands, hafa verið seldar út úr félaginu. Frá þessu er greint í Viðskiptamogganum .

Eignasafn Seðlabankans auglýsti eftir tilboðum í Hildu í síðustu viku. Frá síðustu áramótum hafa nú eignir verið seldar úr safni félagins sem metnar voru á 5,9 milljarða króna.

Fram kemur að eignirnar samanstandi af fasteignum, skuldabréfum, útlánum og öðrum eignum. Þær má meðal annars rekja til fullnustueigna úr þrotabúum SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans.

Um síðustu áramót voru bókfærðar eignir fyrirtækisins 21,3 milljarðar króna en í lok júní síðastliðins voru þær komnar niður í 15,4 milljarða króna.