Nokkrir íslenskir höfundar hafa slegið í gegn á erlendri grundu og seljast bækur þeirra í tugum þúsunda eintaka eða jafnvel milljónum eins og gerst hefur með bækur Arnaldar Indriðasonar. Alls hafa selst um sjö milljónir eintaka af bókum Arnaldar, þær hafa verið þýddar á 38 tungumál og seldar í samtals 108 löndum. Bækur Arnaldar hafa selst hátt í 1,2 milljónum eintaka í Frakklandi en til samanburðar má nefna að bækur Arnaldar seljast í kringum 20.000 eintökum hér á landi.

Yrsa númer tvö

Yrsa Sigurðardóttir er sá höfundur sem kemur næst á eftir Arnaldi í sölu en bækur hennar hafa verið þýddar á yfir 30 tungumál og hafa þær verið seldar í öllum heimsálfum. Kristín Marja Baldursdóttir hefur einnig slegið í gegn erlendis og hafa bækur hennar selst hátt í 400 þúsund eintökum.

Bækur Halldórs Laxness hafa einnig verið gefnar út á mörgum tungumálum en ekki eru til tölur um hversu mikið hefur verið selt af bókum hans. Sjálfstætt fólk hefur selst hátt í tveimur milljónum eintaka a.m.k. en aðrar bækur eftir Laxness hafa selst í færri eintökum. Einnig hefur Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson selst vel á erlendri grundu eða a.m.k. í milljónum eintaka.

Fagurbókmenntir seljast líka vel

Spennusögur seljast betur en fagurbókmenntir á alþjóðavísu. Bók Auðar Övu, Afleggjarinn, sem telst til fagurbókmennta, hefur selst í 100 þúsund eintökum í Frakklandi. Bókin hefur eingöngu komið út í harðspjaldaútgáfu en er væntanleg í kilju sem kemur til með að kosta einn þriðja af verði harðspjaldaútgáfunnar. Afleggjarinn er væntanleg á spænsku og fleiri tungumálum og miklar væntingar eru bundnar við sölu hennar. Steinunn Stefánsdóttir, Hallgrímur Helgason og Jón Kalman Stefánsson hafa einnig gert það gott erlendis en bækur þeirra hafa selst í einhverjum þúsundum eða tugum þúsunda eintaka.