Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segist hafa skilning á ákvörðun Exista að bjóða í allt hlutafé Skipta, móðurfélags Símans, til að taka félagið af markaði, því það ári illa á hlutabréfamarkaði. „Þeir eru að verja hagsmuni félagsins,“ segir hann í samtali Viðskiptablaðið. Hann bendir á að Exista, sem er stærsti hluthafi Skipta, hafi í hyggju að fleyta félaginu aftur á markað þegar aðstæður verði betri. Skipti voru skráð á hlutabréfamarkað síðasta fimmtudag.

Skömmu eftir að fyrstu viðskipti hófust var tilkynnt um valfrjálst tilboð Exista í alla hluti Skipta. Tilboðið hljóðar upp á 6,64 krónur á hlut sem er sama verð og í nýafstöðnu hlutafjárútboði Skipta. Greitt verður með nýjum hlutum í Exista sem verða verðlagðir í samræmi við lokagengi á markaði í fyrir viku, sem var 10,1 króna á hlut. Í útboðinu var boðið til sölu 30% í félaginu en 7% af heildarhlutafé seldist.

Viðskiptablaðið talaði við Björgvin seinnipartinn í dag. Hann staðfesti að hann ætlaði að funda með stjórnarmönnum Exista um yfirtökutilboðið seinna þennan sama dag. Á fundinum ætlaði hann að athuga hvort það rúmist innan leikreglnanna að bjóða fram bréf í Exista sem greiðslu fyrir hlutafé í Skiptum, því þeir sem keyptu í fjarskipta- og upplýsingatæknifélaginu Skiptum verði – taki þeir yfirtökutillboðinu – hlutahafar í fjármálaþjónustufyrirtæki.

„Það var það sem var svolítið öðruvísi í fléttunni,“ segir hann. Enn fremur ítrekar hann að tilboðið sé valfrjálst. Aðspurður hvort það sé eitthvað í kaupsamningum við ríkið sem hindri að bjóða fram eigin bréf sem gjald í yfirtöku á Skiptum, heldur hann að svo sé ekki: „Ekki held ég það. En þetta er óvenjulegt og sjálfsagt að fara yfir hvort það sé ekki allt á hreinu. Það er sjálfsagt að þeim vafa - ef einhver er - sé eytt.“

Í tilkynningu frá Exista segir að ástæða tilboðsins sé sú að ekki sé grundvöllur fyrir eðlilega verðmyndun með bréf Skipta á markaði í ljósi niðurstöðu nýafstaðins hlutafjárútboðs og þeirra óvenjulega erfiðu aðstæðna á markaði.