Virði gjaldmiðilsins Bitcoin hefur rokið upp á þessu ári, hækkunin er meiri en 500%. Chris Skinner, breskur álitsgjafi á sviði fjármála, hélt fyrirlestur um nýsköpun í fjármálum hjá Samtökum fjármálafyrirtækja í vikunni. Hann segist ekki hafa trú á því að Bitcoin verði alþjóðleg greiðslumynt eða nái almennri útbreiðslu. Tæknilega hafi Bitcoin of marga galla.

„Það væri ekki hægt að reka gjaldeyrismarkaði heimsins með Bitcoin. Þeir myndu hrynja. Bitcoin ræður bara við lítinn fjölda greiðslna á hverri sekúndu á meðan alþjóðlegu kortafyrirtækin eins og Visa og Mastercard taka við mörg þúsund færslum á hverri sekúndu,“ segir Skinner í samtali við Viðskiptablaðið.

Bankarnir geti hlotið sömu örlög og bandarísku bílarisarnir

Skinner óttast um örlög þeirra banka sem ekki séu tilbúnir að takast á við yfirstandandi breytingar í fjármálaheiminum. Hann bendir á bókina The Innovator’s Dilemma eftir Clayton Christensen sem kom út fyrir 20 árum.

„Þar er bent á að á flest fyrirtæki sem þegar eru á markaði leggi helst áherslu á að bæta við nýrri vöru og þjónustu þannig að lokum verður þjónustan of flókin og ofhönnuð. Ný fyrirtæki koma þá inn á markaðinn og sleppa öllu nema því allra mikilvægasta. Fyrirtækin sem eru þegar á markaðnum hugsa þá að þetta sé kjánalegt því varan sé svo lítil og ómerkileg. En þetta er það sem viðskiptavinurinn vill og nýju fyrirtækin taka markaðinn yfir.“

Sígilt dæmi um þetta séu hvernig bandarísku bílaframleiðendurnir General Motors og Ford töpuðu markaðshlutdeild eftir innreið japanskra bílaframleiðenda á borð við Toyota og Nissan inn á bandaríska markaðinn. Bílarnir hafi verið einfaldir og ódýrir, eitthvað sem fleiri neytendur höfðu efni á.

Það sama sé að gerast í fjármálageiranum. „Í Afríku, Rómönsku Ameríku og Asíu eru greiðslur í gegnum forrit í snjallsímum ódýr og einföld lausn sem lítur hugsanlega út fyrir að vera smávægilegt fyrir þá sem starfa innan hefðbundna bankageirans því þau eru ekki að bjóða upp á fulla bankaþjónustu. En af því þetta er svo ódýrt og einfalt verðum við öll farin að borga með snjallsímaforritum innan tíu ára.

Ef bankarnir bregðast ekki við og bjóða upp á jafn einfaldar greiðslur og í Afríku munu þeir detta út af markaðnum.“ Skinner segir banka engu síð­ ur áfram nauðsynlega. „Þeir eru eini aðilinn sem hafa leyfi stjórnvalda til að geyma verðmæti og eru eftirlitsskyldir. Lendi fyrirtæki sem stundi greiðslumiðlun í gegnum snjallsíma í vandræð­um sé alls óvíst að maður geti endurheimt þá, ólíkt innistæðutryggingum í banka. Það sama eigi við um Bitcoin.

„Ef það er svindlað á mér í Bitcoin viðskiptum fæ ég ekki peningana mína til baka, því starfsemin byggir ekki á ábyrgðum eða leyfum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .