Eignaumsýslufélag Íslandsbanka, Miðengi, hefur tekið yfir eitt fyrirtæki frá bankahruninu, en það er félagið Hafnarslóð ehf. sem kemur úr þrotabúi Nýsis fasteigna, að sögn Ríkharðs Ottós Ríkharðssonar, framkvæmdastjóra Miðengis.

Hafnarslóð er að sögn Ríkharðs félag um húsnæði lítils leikskóla, Sjálands, í Garðabænum. „Það eru líkur á að Miðengi ehf. taki yfir eignarhluti í félögum eða fasteignum á næstu mánuðum en ekki liggur fyrir hvaða eignir það eru á þessum tímapunkti," skrifar hann enn fremur í tölvupósti til Viðskiptablaðsins.

Blaðið hefur í gær og í dag ítrekað reynt að fá upplýsingar um það hvort Miðengi hafi tekið yfir einhver félög frá hruninu. Í skriflegu svari til blaðsins í dag svarar Ríkharð: „Frá því í október í fyrra hefur Miðengi ehf. tekið eitt fyrirtæki yfir og mun það félag verða selt í opnu og gegnsæu ferli."

Hann upplýsti síðar að um væri að ræða félagið Hafnarslóð úr þrotabúi Nýsis fasteigna. Hann kvaðst jafnframt í samtali við blaðið telja að Hafnarslóð hefði verið tekið yfir í júní.

Það hefði verið tekið yfir vegna skulda Nýsis við bankann.

Megin tilgangur Miðengis er, að  því er segir í tölvupósti Ríkharðs, „að halda utan um þær fullnustueignir sem bankinn kann að eignast vegna útlána til fyrirtækja og að hámarka virði þeirra við sölu í gegnsæju og opnu ferli."