Með yfir 2.300 starfsmenn og starfsemi í 18 löndum vindur tækninni hratt áfram hjá stoð- og stuðningstækjaframleiðandanum Össuri. Eftir 44 ára þróunarsögu er nú hægt að stýra nýjustu vörunum með heilanum og er félagið eitt af þeim stærstu í framleiðslu á stoðtækjum í heiminum. Össur var upphaflega stofnað sem stoðtækjaverkstæði.

Össur Kristinsson stoðtækjafræðingur stofnaði fyrirtækið ásamt Sjálfsbjörgu, S.Í.B.S., Landssambandi fatlaðra, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra og Styrktarfélagi vangefinna. Fyrstu 18 árin var fyrirtækið í eigu Össurar og fjölskyldu hans en í dag er meirihluti í eigu erlendra fjárfesta.

Óhætt er segja að margt hafi breyst á þessum 44 árum og félagið tekið stakkaskiptum á þeim tíma, og það oft. Í dag eru lítil viðskipti með bréf í félaginu hér á landi en þetta er fyrsta íslenska félagið sem var skráð í kauphöll erlendis þegar það var skráð í dönsku kauphöllina árið 2009 þar sem viðskiptin eru blómlegri.

Fyrirtækið lítið þegar Jón byrjaði

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, gekk til liðs við Össur árið 1996 en fyrir þann tíma hafði hann unnið fyrir félagið við gerð dreifisamninga sem viðskiptafulltrúi Útflutningsráðs í New York. Jón segir fyrirtækið hafa verið lítið þegar hann byrjaði og sé allt annað fyrirtæki í dag.

„Mig minnir að það hafi verið sala upp á rúmar 4 milljónir Bandaríkjadala og um 50 starfsmenn. Eftir að það kom upp ósætti á milli stjórnar Össurar og þáverandi framkvæmdastjóra, Tryggva Sveinbjörnssonar, varð úr að ég tæki við sem forstjóri,“ segir Jón.

Jón segir að greiðsluvandamál hafi verið á þeim tíma og fyrirtækið hafi farið fljótlega í skuldabréfaútboð upp á 75 milljónir íslenskra króna.

„Ég þakka Sigurði B. Stefánssyni fyrir að aðstoða okkur þarna til að byrja með. Bankarnir vildu ekki lána og hann sagði þá að við þyrftum ekkert að banka á dyrnar hjá bankastjóra heldur ætti frekar að fara í skuldabréfaútgáfu. Þarna var því farið að bera við annan tón varðandi fjármögnun fyrirtækja. Það gekk vel og við fengum mikilvægt fjárhagslegt svigrúm þá. Eins og alltaf er, þegar við vorum komin með fjárhagslegt svigrúm, þá vildu allir fara að lána okkur en við þurftum þá ekki á því að halda.“

Jón er í ítarlegu viðtali í Frumkvöðlum, tímariti Viðskiptablaðsins, sem kom út á fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .