Lítið má bregða út af svo að tónleikahald endi röngu megin við núllið. „Það er lítill peningur í því að vera tónleikahaldari á Íslandi,“ segir Björn Steinbekk, framkvæmdastjóri Sónar-hátíðarinnar. Hann tekur sem dæmi um drauma manna um að einhver flytji U2 til landsins.

„Ég er búinn að vera í sambandi við U2 í mörg ár, talaði síðast við umboðsmann þeirra rétt fyrir áramót. Það halda allir að Ísland sé svo vinsælt og að það sé svo gaman að koma hingað. Aftur á móti er þetta mjög dýrt og við erum langt út úr alfaraleið. Það að U2 myndi koma og spila á Íslandi er verkefni upp á 300-350 milljónir. Það sitja kannski eftir 20-30 milljónir eftir svoleiðis fjárfestingu, ef allt gengur upp. Oft líta dæmin jafnvel verr út. Það sér því hver heilvita maður að almennt tónleikahald er ekki mjög stöðugur rekstur.“

Björn segir afar mikilvægt að vera meðvitaður um kostnað þegar kemur að tónleikahaldi og halda vel utan um stöðuna hverju sinni. „Þú þarft að fylgjast vel með miðasölunni og tengja saman hvað þú ert að gera markaðslega. Þetta er rosaleg umhirða um kostnað. Þetta snýst um áætlanagerð og vera meðvitaður um hvert þú ert að fara. Um leið og þú missir stjórnina, þegar þú heldur að ef þú bókar einn listamann í viðbót þá selur þú fleiri miða, og ef þú kaupir aðeins fleiri auglýsingar þá selur þú fleiri miða, þá ertu byrjaður að elta skottið á sjálfum þér. Það er eitthvað sem þú þarft að passa. Á bakvið Sónar Reykjavík og Sónar Stokkhólm liggja hins vegar áætlanir og markmið sem eiga oft litla samleið með hefðbundnu tónleikahaldi. Við erum ekki að gera eina tónleika eða tjalda til einnar nætur. Heldur að fjárfesta til framtíðar í samstarfi við okkar samstarfsaðila, innanlands sem utan.“

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .

Hér að neðan má m.a. sjá nýlega upptöku af tónleikum U2.