Úlfar Steindórsson, sem fyrir helgi steig út úr stjórn Icelandair, hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 2010, þar af sem stjórnarformaður frá árinu 2017. Hann steig til hliðar fyrir Matthew Evans, fulltrúa bandaríska fjárfestingafélagsins Bain Capital. Úlfar segir þennan rúma áratug með félaginu hafa verið ótrúlegt ferðalag.

„Þetta hefur verið alveg ótrúlegur tími, ég er ekki viss um að fólk átti sig á þeim breytingum sem orðið hafa á félaginu undanfarin ár. Á þeim tíma sem ég kem inn í stjórnina er þetta samstæðan Icelandair Group, þar sem stjórnin sem er kosin er yfir samstæðunni en þar undir voru allmörg dótturfélög sem voru í vissum skilningi með sjálfstæðar stjórnir, skipaðar starfsmönnum í yfirstjórn Icelandair Group. Á þessum tíma voru níu farþegavélar í flota Icelandair, ef ég man rétt," segir Úlfar.

Hann lýsir því hvernig kröftugt vaxtarskeið hófst eftir samdrátt í farþegaflugi í fjármálahruninu.

„Þegar vöxturinn fór af stað fjölgaði Icelandair farþegavélum hratt, einhverjar tvær til fjórar vélar á ári. Þetta vaxtarskeið varði til ársins 2016, sem fór vel af stað fyrir Icelandair, líkt og önnur flugfélög. Olíuverð fór lækkandi og eftirspurn eftir flugi var gríðarlega mikil. Það varð aftur á móti mikill viðsnúningur á síðari hluta ársins. Fyrirtækið hafði vaxið gríðarlega mikið en innviðirnir ekki alveg náð að fylgja með. Olíuverð tók að hækka og framboð á flugi yfir Atlantshafið jókst gríðarlega mikið. Þá var komin upp sú staða að farmiðaverð fór lækkandi en olíuverð hækkandi og það var svo snemma árs 2017 sem félagið þurfti, í fyrsta skipti í yfir áratug, að senda frá sér neikvæða afkomuviðvörun."

Í mars árið 2017 tók Úlfar við sem stjórnarformaður Icelandair Group, en frá þeim tíma hefur mikið gengið á í rekstri félagsins.

„Við réðumst í skipulagsbreytingar seinni part ársins 2017, sem fólu í sér að það væri sama stjórn yfir Icelandair Group og Icelandair. Stjórnin færðist þannig nær flugfélaginu og fljótlega upp úr því fór af stað sú vinna að einfalda rekstur samstæðunnar með því að leggja aðaláherslu á flugið og draga um leið úr annarri starfsemi. Það er því búið að einfalda reksturinn mikið á undanförnum árum og setja alla áherslu á kjarnareksturinn, flugstarfsemi. Síðan fáum við á okkur Max-skellinn snemma árs 2019 og þegar við erum að komast út úr því verkefni skellur heimsfaraldur á! Þetta er eiginlega búinn að vera ótrúlegur tími, frá byrjun árs 2017 og til dagsins í dag."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .