„Þegar ég horfi á þig núna, þá þykir mér erfitt að sjá hvort þú skiljir mig, klárlega ekki ljóst hvort þú hafir áhuga á því sem ég hef að segja, og mín fyrsta ágiskun væri sú að þú værir pínulítið óvinveittur mér.“

Þetta segir Bob Dignen, ráðgjafi í alþjóðlegri leiðtogaþjálfun hjá York Associates, í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins. Hann var hér á landi á dögunum til að þjálfa nemendur í MPM námi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík í því að eiga í faglegum samskiptum við einstaklinga úr mismunandi menningarheimum.

Dignen segir að gagnvart útlendingum geti hegðun Íslendinga oft virst vera dónaleg og móðgandi. „Þegar ég var að vinna með meistaranemunum núna um helgina kom hegðun þeirra mér í opna skjöldu. Jafnvel eftir að hafa verið í MPM-náminu í tvö ár sátu þeir í salnum og brostu ekki, þeir hlustuðu bara og störðu á mig. Ef þeir heyrðu eitthvað áhugavert fékk ég kannski smá kink eða heyrði smá „mmm“.

Þegar fólk sem er ekki frá Íslandi vinnur með Íslendingum þykir þeim endurgjöf – sem er svo mikilvæg þegar kemur að árangursstjórnun – ekki vera til staðar.“

Lítil stéttskipting

Spurður um helstu einkenni íslenskrar viðskiptahegðunar nefnir Dignen nokkur lykilatriði. „Leiðtogahegðun er eitt atriði. Íslendingar segja mér alltaf að þeir beri heilbrigða vanvirðingu fyrir leiðtogahegðun. Að þú standir ekki ofar öðru fólki stöðu þinnar vegna, að þú þurfir að vera einn af hópnum – þetta er í raun jafningjamiðuð nálgun.

Það getur verið mjög ruglandi gagnvart fólki úr stigskiptari menningarheimum. Það getur gefið til kynna mikla vanvirðingu, jafnvel þó þessar hugmyndir eigi uppruna sinn í virðingu fyrir lýðræði og jafnrétti,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .