Heiðar Már Guðjónsson hefur í gegnum tíðina þótt sjálfstæður og óhræddur við að tjá skoðanir sínar. Aðspurður segist hann ekki vilja vera neinum háður og því kosið að fara eigin leiðir.

Ítarlegt viðtal við Heiðar Má er að finna í Viðskiptablaðinu. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér í heild sinni.

Um upphaf starfa sinna á fjármálamarkaði árið 1996 segir Heiðar Már að hann hafi áður unnið í Svíþjóð og reyndi að meta hvaða þjónustu var boðið upp á þar en vantaði hér heima.

„Ég sá að þar voru allir að vinna greiningar og ákvað því að byrja sjálfur með hlutabréfagreiningu hér heima,“ segir Heiðar Már.

„Ég gerði þetta á kvöldin og um helgar, sló hlutum upp í töfluform, bara saman við bækur og reyndi að fá mynd af fjármagnsflæði fyrirtækja. Ég fékk líka krakka úr háskólanum til að hjálpa mér við þetta og þau gerðu það í aukavinnu um helgar. Þá fórum við yfir ársreikninga og sáum að það var ekkert erfitt að spá fyrir um hagnað fyrirtækja, a.m.k. þeirra sem voru í stöðugum rekstri.“

Heiðar Már segir að þetta hafi verið skemmtilegur tími þó launin hafi ekki verið há, um 180 þús.kr. á mánuði fyrst um sinn. Hann nefnir að fyrra bragði að þau hjónin hafi átt lítinn bíl sem þó fóru um á enda ekki haft vilja til að kaupa sér jeppa og einbýlishús eins og margir aðrir.

„Ég vildi aldrei skulda neinum neitt, það er þannig að ef þú skuldar einhverjum eitthvað þá ertu ekki lengur frjáls. Þá geturðu ekki farið eigin leiðir því þú þarft að standa í skilum gagnvart einhverjum. Það hefur verið mottó hjá mér að skulda engum neitt og það hefur gert það að verkum að ég get verið frjálsari en það sem gengur og gerist,“ segir Heiðar Már.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu.