Ljóst er að Heiðar Már Guðjónsson hafði sínar skoðanir á bankakerfinu á árunum fyrir hrun eins og fram hefur komið í fréttum.

Það er því vert að spyrja hvernig hann lítur á bankakerfið í dag og hvernig hann sér það í framtíðinni. Og það stendur ekki á svari hjá honum.

„Ég skil ekki af hverju það er ekki búið að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbankastarfsemi hér á landi,“ segir Heiðar Már þegar fyrrnefnd atriði eru borin undir hann.

„Í hvert sinn sem þetta er reynt í Bandaríkjunum fara bankarnir í mikla herferð gegn því og verja miklu fjármagni í lobbýisma. Á Íslandi er bankakerfið á hnjánum og það blasir við að nota tækifærið og gera eitthvað svona.“

En er viðskiptabankastarfsemin ein og sér nógu arðbær?

„Þarf mikla arðsemi af viðskiptabankamódeli?“ spyr Heiðar Már á móti.

„Viðskiptabanki á bara að vera eins og orkuveita og veita nærþjónustu. Það eina sem skiptir máli er að greiðslumiðlun sé í lagi en síðan er spurningin hver á að veita lán, s.s. húsnæðis- eða framkvæmdalán. Útibú bankanna eru augljóslega best til þess fallin. Þau eru í mestri nálægð við kúnnann og þekkja hann best. Þá er eftir spurningin hver eigi að fjármagna fyrirtækin. Það er augljóslega sá sem þekkir þau best og er í mestri nálægð við þau. Þetta þarf ekkert að vera sami aðilinn.“

Heiðar Már segir að þegar því sé síðan velt upp í framhaldinu hverjir eigi að fjármagna stöðutöku á skuldabréfa-, gjaldeyris- og hlutabréfamarkaði geti það verið allt annar banki sem skylt eigi við fyrrnefnd atriði. Loks geti enn einn aðilinn séð um lífeyrissparnaðinn, tryggingar og fleira.

„Ef það á að blanda þessu öllu saman, eins og var gert, getur það endað með miklum hagsmunaárekstrum og það kann ekki góðri lukku að stýra.“

Það er eru ekki margir í fjármálakerfinu sem hafa talað svona síðustu ár, skýtur blaðamaður inn í.

„Menn í fjármálageiranum tala ekki svona af því að það þjónar ekki þeirra hagsmunum. Seðlabankinn myndi aldrei leggja það til að tekinn yrði upp annar gjaldmiðill því þá væri hann um leið að mæla með því að hann yrði lagður niður,“ segir Heiðar Már.

„En hvers vegna ættu menn alltaf að fara eftir því hvað einhverjir bankamenn segja? Ef þeir geta sýnt fram á að það sé betra fyrir hagkerfið að reka þetta allt saman og að það sé raunveruleg arðsemi af slíkum samrekstri, þá myndi ég gjarnan vilja sjá þann rökstuðning. Með því að reka þetta allt aðskilið má minnka áhættuna í kerfinu. Minni áhætta leiðir af sér minni vaxtamun. Þannig verða kjör einstaklinga sem eru í viðskiptum við banka betri.“

Nánar er rætt við Heiðar Má í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu.