Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavíkurborg, var kjörin varaformaður Samfylkingarinnar á flokkstjórnarfundi flokksins um helgina. Heiða var ein í framboði og var því sjálfkjörin í embættið.

Hún tekur við stöðunni af Loga Má Einarssyni, sem tók við sem formaður í kjölfar þess að Oddný G. Harðardóttir, fyrrum formaður flokksins sagði af sér.

Heiða Björg er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og með M.Sc. gráðu í næringarrekstrarfræði frá Gautaborgarháskóla með áherslu á gæðastjórnun. Heiða Björg starfar sem deildarstjóri yfir eldhúsi og matsölum á Landspítalanum.