Heiða Kristín Helgadóttir útilokar ekki að hún gefi kost á sér til setu í borgarstjórn þegar borgarstjórnarkosningar fara fram í vor. „Ég myndi ekki útiloka það,“ segir hún í samtali við Viðskiptablaðið. Jón Gnarr borgarstjóri sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að Besti flokkurinn myndi bjóða fram aftur. Hann hefði aftur á móti ekki tekið ákvörðun um eigin framtíð.

Heiða Kristín er bæði framkvæmdastjóri Besta flokksins og framkvæmdastjóri þingflokks Bjartrar framtíðar. Hún segist enga ákvörðun hafa tekið um framtíðina. „Það er svo margt í stöðunni. Þetta verður ábyggilega mjög spennandi vetur og margt sem á eftir að skýrast ennþá,“ segir Heiða Kristín sem naut lífsins í sumarfríi í Bolungarvík þegar Viðskiptablaðið náði af henni tali.

Heiða Kristín segir ekki í deiglunni að sameina Bjarta framtíð og Besta flokkinn. Hún segir að þetta séu systurflokkar og það fyrirkomulag sem sé nú við lýði henti að mörgu leyti vel.