Heiða Kristín Helgadóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, er opin fyrir því að taka við formennsku flokksins af Guðmundi Steingrímssyni.

Frá þessu greindi Heiða Kristín í Vikulokunum á Rás 1 í morgun, en hún er annar stofnenda Bjartrar framtíðar. Sagði hún að Guðmundur hefði fengið nægt svigrúm til að sanna sig en að skoðanakannanir gæfu tilefni til að hafa áhyggjur.

Aðspurð sagðist Heiða Kristín treysta sér vel til að taka við formennsku í flokknum og ef hljómgrunnur sé fyrir því er hún tilbúin að taka slaginn. Áður hafði hún lýst því yfir að hún ætlaði ekki að taka sæti á þingi í stað Bjartar Ólafsdóttur, sem er á leið í fæðingarorlof. Hins vegar ætlar hún að endurskoða afstöðu sína fari svo að Guðmundur Steingrímsson víki úr formannssætinu.