„Hann hefur lofað því vel á þriðja ár að svar komi í næstu viku svo ég veit ekki hvað ég á að halda lengur,“ segir Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir í samtali við Fréttablaðið .

Nú eru liðin fjögur ár síðan Heiðar lagði fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis þar sem hann taldi eignarhaldsfélag Seðlabanka Íslands ekki hafa fylgt reglum stjórnsýsluréttar varðandi sölu ríkisins á Sjóvá. Ursus, félag Heiðars, hefði boðið tæpa ellefu milljarða króna í fyrirtækið en að hans sögn var honum ýtt út úr söluferlinu.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segir í samtali við Fréttablaðið að rétt sé að málið hafi dregist en von sé á því að svar berist fljótlega. Hann bendir á að málinu hafi ekki verið lokið af hálfu stjórnvalda þegar það kom inn á borð til hans. „Ég hafði vonast til þess að þessu máli væri lokið nú en annir við afgreiðslu á kvörtunum hafa leitt til þess að það hefur ekki tekist.“