Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og forstjóri Sýnar, gagnrýnir framgöngu fulltrúa Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow sem nú stendur yfir í grein sem hann skrifar á Vísi.

Frumskylda íslenskra embættis- og stjórnmálamanna sé að standa vörð um íslenska hagsmuni, ekki hagsmuni annarra, sem Heiðar efast um að 50 manna sendisveit Íslands í Glasgow sé að sinna.

Þá furðar hann sig á hugmyndum bæði Landverndar um að banna jarðaefnaeldsneyti hér á landi sem Heiðar segir að væri „efnahagslegt harakiri“ fyrir Ísland sem og tillögum Guðmundur Inga Guðbrandssonar, umhverfisráðherra og fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar, um framtíðaráætlun Íslands í loftslagsmálum.

Heiðar gagnrýndi einnig nýja stefnu ESB um að ekki verðið farið í nýja olíu og gasvinnslu á norðurslóðum á heimsþingi ráðstefnu Hringborðs Norðurslóða í Hörpu fyrir skömmu. ESB ætti að leyfa íbúum við norðurskautið að ákveða slíkt sjálf.

„Lítið upp á okkur að klaga“

Forsendurnar sem lagðar séu fram á fundnum í Glasgow ganga vart upp að mati Heiðars. „Ísland er í fararbroddi með nýtingu endurnýjanlegrar orku og hefur verið um langt skeið. Það er því lítið upp á okkur að klaga. Hins vegar tekur einfalt regluverk í kringum þessar ráðstefnur Sameinuðu þjóðanna takmarkað tillit til þess hvar þjóðir eru staddar í umgengni sinni við náttúruna, þar eru nánast sömu kröfur settar jafnt á alla. Skussarnir eiga að minnka útblástur jafn mikið og hinir sem nánast engan útblástur hafa. Það er lítið vit í slíku kerfi,“ segir Heiðar.

Á meðan séu aðrar þjóðir að auka útblástur sinn. Til dæmis sé Indland að byggja ný kolaorkuver sem séu tuttugfalt aflmeiri en öll rafmagnsframleiðsla Íslands. Fyrir eru ógrynni kolaorkuvera á Indlandi sem mengi sem allt að hundraðfalt á við hagkvæmustu gasorkuver. Þá sé Kína að opnar nærri eitt nýtt kolaorkuver í hverri viku.

„Furðuhugmynd“ Landverndar

„Í þessu ljósi hlýtur að mega að spyrja hvaðan sú furðuhugmynd framkvæmdastjóra Landverndar komi um að Íslendingar eigi að sýna fordæmi fyrir öll önnur lönd og fremja efnahagslegt harakiri með því að banna alla notkun jarðefnaeldsneytis. Íslendingar sem eru algerlega háðir alþjóðaviðskiptum eiga þannig að hætta nota eina orkugjafa millilandaflutninga. Og hvaðan koma tillögur umhverfisráðherra, fyrrverandi formanns Landverndar, sem hann kynnir í Skotlandi þar sem þrjár af fimm sviðsmyndum ganga út á að slökkva á stóriðju og snúa sér að ylrækt til að geta minnkað stórlega neyslu landans á kjöti. Þar er reyndar viðurkennt að það bitni á lífsgæðum Íslendinga. En fyrir hvern?“ spyr Heiðar.

„Ég spyr mig því þeirrar einföldu spurningar, hverra hagsmuna er þessi sendinefnd að gæta á fundinum í Skotlandi?“ segir Heiðar í lok greinarinnar.