Heiðar Már Guðjónsson hagfræðingur og fjárfestir lagði sjálfur út fyrir komu Lee C. Buchheit hingað til lands í desember árið 2008 og þriggja helstu sérfræðinga heims um skuldamál sem funduðu með stjórnendum Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um skuldavanda fyrirtækisins. Buchheit leiddi síðar samninganefnd Íslands sem gerði þriðju og síðustu Icesave-samningana síðla árs 2010. Samningunum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2011 og fór málið fyrir EFTA-dómstólinn.

„Ég hef enga samninga um fjárhagslega aðkomu að þessu máli og vænti einskis, heldur greiði,“ skrifar Heiðar Már í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Í greininni svarar hann Gylfa Magnússyni, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, um það sem hann kallar kerfisbundinn misskilning. Heiðar skrifaði grein um Icesave-málið og fleiri mál sem tengdust ráðherratíð Gylfa á mánudag og svaraði Gylfi henni í gær. Gylfi telur m.a. að Heiðar hafi haft fjárhagslega hagsmuni umfram aðra landsmenn af því að niðurstaða málefna Orkuveitu Reykjavíkur þróaðist með einum hætti frekar en öðrum.

Þessu vísar Heiðar á bug. Hann skrifar:

„Ég hafði vonast til þess að umræðan um efnahagsmálin gæti verið málefnaleg, sérstaklega þegar rætt er við háskólamenn.“

Endurheimtur kröfuhafa lækkað um mörg hundruð milljarða

Í grein sinni í Fréttablaðinu í dag vísar Heiðar ýmsu því sem Gylfi skrifar um á bug. Þar á meðal að í ljósi rangs mats á erlendri skuldastöðu eigi að ganga til samninga við erlenda kröfuhafa. Heiðar segir það vitleysu enda hafi væntingar vogunarsjóða á endurheimtum lækkað talsvert frá því í haust. Hefði hins vegar verið samið við lánardrottna þá hefðu vogunarsjóðirnir fengið sitt til baka. Lækkunin nemur hundruð milljóna, að mati Heiðars.

Spákaupmennskan hjá Orkuveitunni

Öðru máli gegnir hins vegar um Orkuveituna, að mati Heiðars:

„Erlendar skuldir OR eru tuttugufaldar tekjur hennar í erlendum myntum, kaup OR á gjaldeyri til að mæta þessum skuldum veikir lífskjör almennings. Þessar skuldir eru ekki tilkomnar vegna veituþjónustu fyrirtækisins við almenning heldur vegna mislukkaðrar spákaupmennsku fyrirtækisins. Gylfi vill að almenningur beri tjónið að fullu. Ég hef lagt til að leitað verði samninga um að fagfjárfestarnir sem tóku vitandi vits þátt í áhættunni með lánveitingum beri hluta tjónsins. Seðlabankinn tiltekur fyrirtækið, eitt fyrirtækja ásamt Landsbankanum, í skýrslu sinni um fjármálastöðugleika og ógnir við hann. Gylfi getur því ekki breytt því að skuldastaða fyrirtækisins er ósjálfbær og neitar að viðurkenna vandann eins og í öðrum málum.“

Vitleysa að bjarga Byr og SpKef

Þá segir Heiðar að í ráðherratíð Gylfa hafi verið rangt að koma sparisjóðunum Byr og SpKef til bjargar. Hann skrifar:

„Gylfi neitar að mat hans hafi verið kolrangt og heldur því fram að hann hafi ekkert annað getað gert í stöðunni. Það er rangt. Það hefði átt að loka þess um stofnunum strax því taprekstur þeirra var framlengdur og kostaði skattgreiðendur fimmtíu milljarða.“