Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, segir að núverandi ríkisstjórn hafi tryggt að ógnin við fjármálastöðugleika hér á landi sé ekki lengur fyrir hendi með áætlun sinni um afnám fjármagnshafta. Þetta skrifar hann í grein í Morgunblaðinu.

Í greininni rifjar Heiðar upp aðra grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið fyrir þremur árum síðan þar sem hann spáði öðru hruni á árinu 2016. Þá hafi allar áætlanir miðað að því að greiða erlendum kröfuhöfum út erlendan gjaldeyri og leyfa þeim að skipta íslenskum eignum á gengi sem væri 135-155 krónur á móti evru. Af því tilefni hefði greinin verið skrifuð þar sem íslenska ríkið myndi gjaldfalla á erlendum skuldbindingum sínum, enda væri landið þurrausið af gjaldeyri, en erlendir kröfuhafar fengið allt sitt til baka.

„Haustið 2012 leit allt út fyrir að ríkisstjórnin myndi samþykkja nauðasamninga gömlu bankanna. Það hefði verið stórslys, en því var sem betur fer forðað þegar almenn umræða hófst um hvílíkt óréttlæti það væri að greiða erlendum aðilum út, að fullu, en skilja íslensk fyrirtæki, sjóði og almenning eftir með reikninginn,“ segir Heiðar.

Rangfærslurnar leiðréttar

Hann segir að tvær ástæður hafi verið fyrir því að menn voru nærri því búnir að gera þessi „hrapallegu mistök“.

„Sú fyrri var að margir virtust telja að kröfuhafar slitabúanna ættu að hafa forgang á aðra íslenska borgara vegna þess tjóns sem þau höfðu orðið fyrir vegna kaupa á skuldbindingum einkafyrirtækja. Þetta sjónarmið leit framhjá því að aðrir Íslendingar höfðu einnig orðið fyrir miklu tjóni og alveg óháð því að þá eiga allir að vera jafnir fyrir lögum.

Seinni ástæðan er sú að menn kerfisbundið vanmátu vandann. Seðlabankinn gaf út rit þar sem því var ranglega haldið fram að erlend staða þjóðarbúsins hefði í annan tíma ekki verið betri í febrúar 2012, nokkrum vikum fyrir kosningar um IceSave. Þeir hafa síðan smám saman uppfært mat sitt og leiðrétt rangfærslurnar,“ skrifar Heiðar.

Gjaldþrotakröfurnar skiptu miklu

Heiðar segir að þegar Seðlabanki Íslands hafi loks árið 2013, fáeinum vikum fyrir Alþingiskosningar, farið að viðurkenna að skuldabréf nýja Landsbankans við gamla fallna bankann væri ein helsta ógn fjármálastöðugleika hafi orðið vatnaskil. Við hafi tekið ríkisstjórn sem skildi ójafnvægið sem var í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, þar sem skuldir voru langt umfram eignir.

„Í ljósi þess farvegs sem þetta mál var í í tíð fyrri stjórnar eru fréttir vikunnar mikið gleðiefni. Þó að ég hefði gjarnan vilja ganga lengra sjálfur er niðurstaðan ásættanleg fyrir alla hlutaðeigandi,“ segir Heiðar. Hann kveðst jafnframt telja að krafa hans um gjaldþrotaskipti gömlu bankanna hafi skipt miklu um samningsvilja kröfuhafa enda hefðu þeir þá borið enn skarðari hlut frá borði.

„Núverandi ríkisstjórn tryggir að ógnin við fjármálastöðugleikann er ekki lengur fyrir hendi og erlendir kröfuhafar skilja allt að 500 milljarða eftir á landinu umfram það sem áætlanir gengu út á árið 2012. Ef nauðasamningar nást ekki fyrir árslok verður fjárhæðin nær 700 milljörðum og ef kröfuhafar ákveða að setja búin í þrot þá getur fjárhæðin nálgast 1.000 milljarða. Það er ekki annað hægt en að fagna árangrinum,“ segir Heiðar að lokum.