Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar segir ekki rétt að að bera saman heildaráhorf á Stöð 2 við línulega dagskrá Ríkisútvarpsins enda einungis hluti áhorfsins í línulegri dagskrá og efnisveitan Stöð 2+ sé utan áhorfsmælinga. Félagið segir að fjórföldun áhorfs hafi orðið á efnisveitunni sem áður hét Stöð 2 Maraþon síðustu mánuði.

Félagið segir að aldrei hafi fleiri heimili haft áskrift að afþreyingu frá Stöð 2, eftir að tvöföldun hafi orðið á nýsölu áskrifta það sem af er janúar samanborið við fyrra ár. Í tilkynningu félagsins segir að yfir 40.000 heimili hafi nú aðgang að Stöð 2+, en áhorfið á stöðina sé utan áhorfsmælinga Gallup.

Fjallað hefur verið um nærri fjórðungs samdrátt í áhorfi á Stöð 2 í fréttum síðustu daga eftir að fyrirtækið setti fréttatíma sinn í læsta dagskrá. Samdrátturinn mælist um helmingur á fréttatímann eftir að hann hætti að vera í opinni dagskrá 18. janúar síðastliðinn, og nam áhorfið 10,8% vikuna 18. til 24. janúar meðan áhorfið á fréttir RÚV var 33,6% að því er ríkisstofnunin greinir sjálf frá .

Áskriftarverðið lækkað í tæpar 8 þúsund krónur

Stöð 2 kynnti í byrjun janúar breytingar sem fólust í því að stöðin varð hrein áskriftarstöð og urðu fréttir og tengt efni því einungis aðgengilegt áskrifendum frá og með 11. janúar síðastliðnum.

Á sama tíma var nýtt verð á Stöð 2 kynnt þar sem aðgangur að Stöð 2+ (áður Maraþon) fylgdi ásamt sveigjanlegri áskriftarskilmálum. Neytendur hafa fagnað þessum breytingum og hefur nýsala áskrifta rúmlega tvöfaldast það sem af er janúar.

Sigurður Amlín Magnússon, forstöðumaður sölu- og þjónustusviðs Stöðvar 2 segir gaman að sjá jákvæð viðbörð við þeim miklu breytingum sem Stöð 2 hefur kynnt upp á síðkastið.

„Sala á áskriftum að Stöð 2, Stöð 2+ og Stöð 2 Sport er umtalsvert hærri en á sama tíma í fyrra og enn nokkrir dagar eftir af janúar mánuði,“ segir Sigurður Amlín. „Nýtt verð og sveigjanlegri áskriftarskilmálar eru að fá mjög góðar viðtökur hjá landsmönnum sem er virkilega ánægjulegt.“

Efnisveitan Stöð 2+ er jafnframt sögð hafa síðustu mánuði séð tæplega 300% aukningu í áhorfi en í dag hafa rúmlega 40.000 heimili aðgang að Stöð 2+.

„Við erum í dag með fjölbreytt úrval afþreyingar, bæði hágæða línulega dagskrá og beinar útsendingar á íþróttum en ekki síst gríðarlega öfluga efnisveitu sem fer sífellt stækkandi, bæði hvað varðar efni og áskrifendur,“ Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar og Stöðvar 2.

„Samanburður á heildaráhorfi okkar við línulega dagskrá RÚV er ekki réttur enda aðeins hluti áhorfs okkar í línulegri dagskrá. Áhorf á Stöð 2+ er utan mælinga Gallup en þar hafa yfir 40.000 heimili aðgang og notkun eykst í hverjum mánuði. Við fögnum frábærum viðbrögðum markaðarins og hlökkum til þess að efla efnisframboð okkar og þjónustu enn frekar næstu misseri.“

Áskrift að Stöð 2 fylgir framvegis aðgangur að Stöð 2+ (áður Maraþon) á áður óþekktu verði, aðeins kr. 7.990.- á mánuði.
Á sama tíma verður breyting á áskriftarskilmálum sem felst í því að engin binding er á áskriftum umfram líðandi mánuð.
Hægt er að segja upp eða gera breytingar á áskriftum fyrir 25. hvers mánaðar sem taka þá gildi fyrsta dag næsta mánaðar.