„Við elskum hvert annað og viljum vera saman. Við erum eins og fjölskylda. En við þurfum að bjarga okkur; markaðurinn er öðru fremur sálgæsluatriði. Það er alveg óvíst hvort nokkur peningur komi úr þessu,“ segir Heiðar Jónsson snyrtir og fyrrverandi flugliði hjá Iceland Express. Fyrrverandi starfsfólk flugfélagsins sem missti vinnuna þegar Wow air keypti reksturinn seint í október ætla næstu þrjá daga að selja ýmir konar varning í Ármúla 7. Húsakynnin eru táknræn en þar var áður söluver Iceland Express. Af um 70 starfsmönnum fengu í kringum 15 starf hjá Wow air. Markaðurinn opnar nú klukkan 13 og verður hann opinn til klukkan 18 alveg fram á laugardag.

Heiðar, sem er 64 ára, vann sjálfur hjá Iceland Express frá árinu 2005 en fékk ekki starf hjá Wow air. Hann segist hafa haft nóg að gera upp á síðkastið í öðrum störfum en öryggi hafa falist í flugliðastarfinu.

Atvinnumissir er áfall

Heiðar segir kaup Wow air á Iceland Express og atvinnumissinn hafa verið mikið áfall fyrir marga þá sem störfuðu hjá flugfélaginu. Hann segir markaðinn hafa verið eina þeirra hugmynda sem hafi komið upp til að halda heilsu og halda út. Hann segist í samtali við vb.is telja leikkonuna Eddu Björgvinsdóttur eiga hugmyndina að markaðnum.

„Hún er með geðheilsunámskeið eins og ég. En hún er bara svo frjó og hún sagði: Elskurnar mínar, við þurfum að gera eitthvað svo þið farið ekki í neinn mínus. Þetta er þannig, þetta er gert til þess að láta okkur og öðrum líða vel.“

Kaffi og knús

Á markaðnum verður ýmis varningur til sölu, bæði nýr og notaður. Þar á meðal eru koddar og teppi eins og flugliðar voru vanir að koma með til farþega. Þá geta gestir sömuleiðis keypt þar fatnað bæði fyrir börn og fullorðna, sem oftar en ekki hefur verið keyptur á erlendri grundu, undurfagrir aðventukransar, ýmiskonar handverk, glis, glimmer og hamingja. Þá er boðið upp á knús og kaffi á Kaffihúsi Iceland Expressó.