Heiðar Karlsson hefur verið ráðinn forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Vista verkfræðistofu. Heiðar kemur frá IMS Vintage Photos þar sem hann starfaði sem COO.

Heiðar hefur m.a. starfað sem forstöðumaður, tæknistjóri (CTO) og framkvæmdarstjóri (CEO) hjá Advania, Novomatic Lottery Solutions og Betware og er hann sagður hafa yfirgripsmikla reynslu af stjórnun og rekstri í tilkynningu.

Einnig hefur hann komið að uppsetningu á stórum hugbúnaðarkerfum hjá innlendum sem erlendum fyrirtækjum, ásamt því að hafa starfað að nýsköpunarverkefnum.

Heiðar mun verða hluti af stjórnendateymi VISTA og stýra sölu- og markaðsstarfi á Íslandi ásamt því að koma að þróun á lausnum til handa viðskiptavinum Vista jafnt innanlands sem erlendis.

„VISTA sérhæfir sig í verkefnum tengdum ýmiskonar mælingum, mælibúnaði sem og eftirliti og sjálfvirkni þegar kemur að gagnasöfnum frá mælitækjum,“ segir Heiðar.

„Miklar tækniframfarir í nemum og hugbúnaði undanfarin ár hafa gert það að verkum að aldrei hefur verið auðveldara fyrir fyrirtæki að auka skilvirkni og hagkvæmni með upplýsingum frá mælitækjum af ýmsu tagi. Það má segja að internet hlutanna (IoT) sé farið rækilega á flug. Það eru því gríðarlega mörg tækifæri fyrir okkur til að vaxa enn meira innanlands sem utan og framtíðin er mjög spennandi á þessu sviði.“