Þann 27. maí næstkomandi verður mál Heiðars Más Guðjónssonar gegn slitastjórn Glitnis tekið til efnismeðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Heiðar á kröfu á hendur Glitni og hefur gert kröfu um að búið verði tekið til gjaldþrotameðferðar. Heiðar segir í samtali við Viðskiptablaðið að erlendir kröfuhafar hafi lagt mikið á sig til að tefja framgang málsins, en að lögin séu skýr. Ekki skipti máli hver fjárhæð kröfunnar er, hvaða kröfuhafi sem er hafi rétt á að krefjast þess að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta.

Heiðar Már segist búast við því að niðurstaða fáist í byrjun júní, en að öllum líkindum verði málinu áfrýjað til Hæstaréttar, hver sem niðurstaðan verður. Mikið sé í húfi að óyggjandi niðurstaða fáist.