Það eru engin pólitísk öfl á bakvið samning Eykon og kínverska olíuleitarfélagsins CNOOKC né samninginn í heild sinni.

Þetta segir Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir og stjórnarformaður Eykon í samtali við breska blaðið Financial Times (FT). Eins og Viðskiptablaðið greindi frá um miðja síðustu viku hefur íslenska olíuleitarfyrirtækið Eykon Energy ehf. náð samningum við kínverska ríkisolíuleitarfyrirtækið China National Offshore Oil Corporation (CNOOC) um samstarf við olíuleit á Drekasvæðinu.

Fjallað var um málið í FT  um helgina. Heiðar Már segir í samtali við blaðið að margir hafi sýnt verkefninu áhuga en að lokum hafi það verið CNOOC sem hafi haft nægilega getu til að koma að verkefninu.

Fram kemur í frétt FT að Heiðar Már hafi gert lítið úr auknum áhuga og umsvifum Kínverja á Íslandi, í það minnsta sé hann takmarkaður á meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði. Þannig segir Heiðar Már að hægt sé að fjárfesta í olíuleit utan landssteinanna en á meðan gjaldeyrishöftin vari sé lítið um erlendar fjárfestingar á Íslandi.

FT fjallar einnig um áhuga Huang Nubo á því að leigja land á Grímsstöðum á Fjöllum. Fram kemur í fréttinni að það geti mögulega orðið að veruleika nú þegar ný ríkisstjórn hafi tekið við völdum.

Þá er einnig fjallað um áhuga Kínverja á Norðurslóðum og þeim breytingum sem þar eru að eiga sér stað. Í síðustu viku var m.a. tilkynnt að kínversk stjórnvöld hefðu sett á fót rannsóknarmiðstöðina China-Nordic Arctic research centre sem staðsett er í Shanghai.

Áskrifendur FT geta nálgast fréttina hér.