Hagsmunir Íslendina og Kanadamanna liggja að miklu leyti saman á næstu árum og þá helst vegna Norðurslóða. Þess vegna eru miklar líkur á því að Kanadamenn vilji aukið samstarf við Ísland, m.a. á vettvangi myntsamstarfs.

Þetta sagði Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, á fundi VÍB um einhliða upptöku annars gjaldmiðils sem fram fór í morgun. Heiðar Már hefur verið einn helst talsmaður þess að Íslendingar taki upp Kanadadal sem lögeyri við fyrsta tækifæri. Heiðar Már sagðist þekkja til þess að kanadískir bankar hefðu áhuga á því að starfa hér á landi.

Í erindi sínu lagði Heiðar Már mikla áherslu á að tíminn væri peningar og að Ísland gæti ekki beðið með það í mörg ár að taka upp annan gjaldmiðil. Augljóst væri að krónan væri ekki framtíðargjaldmiðill landsins og of langt væri í að Ísland tæki upp evru, að undangenginni aðild í Evrópusambandið. Þá ítrekaði Heiðar Már fyrri orð sín um að allt stefndi í aðra krísu árið 2016 og þá yrði það ríkið sem myndi lenda í vandræðum en ekki einkabankar.

Hvað viðskipti við útlönd varðar sagði Heiðar Már að um 37% af viðskiptum Íslendinga væru í Bandaríkjadal en um 27% væri í evrum. Það væri því rangt sem haldið væri fram um að evrusvæðið sé stærsta viðskiptasvæði Íslands. Þetta útskýrði Heiðar Már þannig að stór hluti af útflutningi Íslendingar, þá helst ál, væri siglt til umskipumar í Rotterdam í Hollandi (og þannig talinn sem útflutningur á evrusvæði) þrátt fyrir að varan væri verðlögð í dollurum.

Þá sagði Heiðar Már að mikilvægast væri að bankar væru ekki reknir á ábyrgð ríkisins. Ef stjórnendur banka færu illa að ráði sínu ættu þeir að sitja uppi með þann reikning en ekki skattgreiðendur. Hann sagði að með því að taka upp annan gjaldmiðil væri hægt að takmarkað hættuna á því að bankahrun lenti í fanginu á skattgreiðendum, þannig væri ekki hægt að stunda „markaðssósíalisma“ um ókomna tíð en það var orðið sem hann notaði yfir ríkisábyrgð á bönkum. Þá tók Heiðar Már fram að íslensku bankarnir væru mun betur reknir í dag en þeir voru fyrir hrun. Hins vegar væru erlendir eigendur þeirra ekki líklegir til að vilja eiga þá lengi, en með því að taka upp nýjan gjaldmiðil væri búið að opna möguleikana á því að erlendir bankar hefðu áhuga á því að kaupa banka hér á landi.

Í pallborðsumræðum sagði Heiðar Már að hingað til hefðu íslenskir stjórnmálamenn stundað það að prenta sig út úr vandræðum. Það sýndi sig hvað best í hárri verðbólgu hér á landi. Hann sagði verðbólgu vera eina skattinn sem ekki þyrfti samþykkt þingsins fyrir og að stjórnmálamenn hefðu notað þetta tæki óspart. Allt bitnaði þetta að lokum á heimilum og fyrirtækjum en með upptöku nýs gjaldmiðils væri búið að taka þetta verkfæri úr höndum stjórnmálamanna.