Vilmundur Jósefsson, framkvæmdastjóri Svartá og fv. formaður Samtaka atvinnulífsins, náði ekki kjöri í stjórn Vodafone á aðalfundi félagsins sem fór fram í gær. Sex einstaklingar höfðu gefið kost á sér í fimm stjórnarsæti í félaginu.

Í stjórn félagsins voru kjörin þau Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla hjá Eimskip, Anna Guðný Aradóttir, forstöðumaður markaðs- og samskipta hjá Samskipum, Hildur Dungal (sem sat áður í varastjórn), fv. forstjóri Útlendingastofnunar, Hjörleifur Pálsson, fv. fjármálastjóri Össurar, og Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir. Ný stjórn fundaði strax í gær og var Hjörleifur kjörinn formaður og Hildur varaformaður.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær stóð baráttan um stjórnarsæti helst á milli þeirra Vilmundar og Heiðars Más og samkvæmt úrslitum gærdagsins hafði Heiðar Már betur í þeirri baráttu. Heiðar Már á tæplega 5% hlut í Vodafone og er sjötti stærsti hluthafi félagsins í gegnum félag sitt Ursus. Hann er eini einstaklingurinn, ef þannig má að orði komast, á lista yfir 20 stærstu hluthafa félagsins. Með öðrum orðum er hann eini aðilinn sem á einn félag sem heldur utan um hans hlut en aðrir eru ýmist lífeyrissjóðir, aðrir sjóðir, tryggingafélög eða bankar.

Vilmundur naut stuðnings Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV), sem er næststærsti hluthafinn í Vodafone með um 12% hlut, en þar réði mestu stuðningur Helga Magnússonar, stjórnarformanns LV. Þá var Hjörleifur í raun fulltrúi LV í framboði til stjórnar og átti samkvæmt vilja forsvarsmanna LV að koma inn sem fimmti maðurinn. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hvöttu þó margir af minni hluthöfum í félaginu Heiðar Má til að sækjast eftir stjórnarsetu og í framhaldinu stjórnarformennsku.

Á aðalfundinum í gær var samþykkt að stjórnarmenn í félaginu fengju greiddar 200 þúsund krónur á mánuði í þóknun en stjórnarformaður 400 þúsund krónur. Þá munu varastjórnarmenn fá greiddar 75 þúsund krónur fyrir hvern setinn fund.