„ Ég harma þá niðurstöðu Hæstaréttar sem birt var í dag í máli sem ég hafði höfðað á hendur ritstjórum og blaðamanni DV. Sú niðurstaða dómsins að DV hafi þurft að bera sjálft kostnað sinn af málarekstrinum, segir mér þó að ekki hafi verið tilefnislaust af minni hálfu að láta reyna á rétt minn,“ segir fjárfestirinn Heiðar Már Guðjónsson.

Hann tapaði í dag meiðyrðamáli sínu gegn Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, Jóni Trausta Reynissyni, fyrrverandi ritstjóra DV og núverandi framkvæmdastjóra, og Inga Frey Vilhjálmssyni, fréttastjóra DV. Heiðar fór fram á miskabætur vegna ummæla sem þeir höfðu haft um hann í leiðara blaðsins og í umfjöllun um málefni hans. Þetta er eitt meiðyrðamál Heiðars gegn DV af tveimur. Í hinu málinu krefst Heiðar svara við því hversu langt fjölmiðlar geta gengið í skrifum sínum gegn fólki.

Í tilkynningu sem Heiðar hefur sent frá sér vegna málsins segist hann hafa farið í málið til að bregðast við ósannindum og fúkyrðum sem DV birti um hann án nokkurs raunverulegs tilefnis.

Hann skrifar:

„Því miður gerir dómurinn ekki kröfu til DV um að blaðið sanni til hlítar fullyrðingar sínar í minn garð. Það er ofar mínum skilningi að í tjáningafrelsinu felist nú réttur til að bera borgara sökum án þess að þurfa svo að færa fram fullar sönnur fyrir staðhæfingum sínum. Ég skil ekki að slíkt sé talið mikilvægt til að tryggja opna, lýðræðislega umræðu í samfélaginu.

Um hitt mál sitt segir hann:

„Ég [vil] að því sé svarað hversu langt fjölmiðlar geti gengið í að ausa borgarana svívirðingum, t.d. kallað þá vitskerta, áður en komið er út fyrir endimörk tjáningarfrelsisins.“

Dómur Hæstaréttar