Manuel Hinds, fyrrv. fjármálaráðherra El Salvador, á fundi VÍB um einhliða upptöku annars gjaldmiðils þann 27.04.12.
Manuel Hinds, fyrrv. fjármálaráðherra El Salvador, á fundi VÍB um einhliða upptöku annars gjaldmiðils þann 27.04.12.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Þeir Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, og Manuel Hinds, fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador, skrifa grein í Fréttablaðið í dag þar sem þeir taka fram sjö tölusetta liði um dæmi um villur í skýrslu Seðlabanka Íslands, Valkostir í gengis- og gjaldmiðlamálum. Aðeins er um að ræða athugasemdir við kafla 19. sem fjallar um einhliða upptöku annars gjaldmiðils.

Á meðal þess sem þeir taka fram sem villur í skýrslunni er það sem þeir telja ofmat á skiptikostnaði á grunnfé í umferð. Þeir segja Seðlabankann ranglega telja kostnaðinn um 80 milljarða en að raunin sé um 40 milljarðar.

Einnig nefna þeir fullyrðingu Seðlabankans um að ekkert land hafi tekið upp einhliða aðra mynt án þess að landið hafi þegar verið undir það búið, með mikilli notkun landsmanna á viðkomandi mynt. Í skýrslunni hafi El Salvador verið tekið sem dæmi en að raunverulega hafi hlutfall dollarainnstæðna af heildinni verið um 10%.

Í skýrslunni er því á blaðsíðu 502 haldið ranglega fram samkvæmt greininni að meirihluti fjármálakerfis El Salvador sé ekki í erlendri eigu, þegar tveir stærstu bankar landsins eru Citibank og HSBC og allir bankar sem einhvers máttu sín voru keyptir af erlendum aðilum eftir upptöku dollars þar í landi.