Síðastliðinn þriðjudag var formlega gengið frá stofnun samlagshlutafélagsins Innviðir fjárfestingar slhf. og er Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir meðal stofnenda. Heiðar Már er stjórnarformaður félagsins og ásamt honum í stjórn sitja Andri Vilhjálmur Sigurðsson og Rútur Örn Birgisson.

Stofnfé félagsins hljóðar upp á fjórar milljónir króna, en yfirlýstur tilgangur þess er að fjárfesta í fyrirtækjum sem snerta innviði samfélaga, hvort sem um er að ræða viðhald, uppbyggingu eða þjónustu við grunnstoðir samfélaga. Er þar átt við m.a. hafnir, vegi, raflínur, vatnsveitur o.fl.

Heiðar Már vildi ekki gefa of mikið upp þegar Viðskiptablaðið heyrði í honum í dag en sagði ljóst að mikil þörf væri á því að einkaaðilar fjárfesti í innviðum samfélagsins.

„Það er verið að hnýta síðustu lausu endana, en það er búið að fjármagna fyrirtækið og annað. Það á eftir að halda fyrsta formlega hluthafafundinn og við erum búnir að ákveða að gefa ekkert úr fyrr en að því loknu,“ segir Heiðar í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það er bara nauðsynlegt fyrir framþróun hagkerfisins að það sé veitt í innviði, og á meðan sveitafélög og ríki eru jafn skuldsett og raun ber vitni, þá þurfa aðrir að koma að þessu. Það hefur gerst í öllum löndum í kringum okkur að aðrir aðilar en ríki og sveitafélög hafa tekið það að sér að byggja upp innviði samfélagsins. Það er algerlega nauðsynlegt ef við ætlum að búa við fyrsta flokks kerfi.“

DV greindi frá væntanlegri stofnun þessa félags í miðjum síðasta mánuði. Þar kemur fram að auk Heiðars muni fjármálafyrirtækið Summa rekstrarfélag taka þátt í stofnun sjóðsins. Muni lífeyrissjóðir fjármagna hann og verði hann fimm til tíu milljarðar að stærð í upphafi.