Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir, segir hagfræðinga Seðlabankans vera með útúrsnúninga í umræðunni um útreikninga á launum hér á landi. Þetta kemur fram í aðsendri grein Heiðars í Morgunblaðinu í dag.

Heiðar hafði áður sagt í viðtali að laun á Íslandi mæld í alþjóðlegum myntum væru komin aftur um tvo áratugi. Sama dag sendu þeir Bjarni Geir Einarsson og Jósef Sigurðsson, sem starfa hjá rannsóknar og spádeild hagfræði og peningastefnusviðs Seðlabanka Íslands frá sér tilkynningu þar sem þeir héldu því fram að útreikningar Heiðars Más væru rangir.

Heiðar svaraði þessu með því að þeim hafi yfirsést að til að reikna laun í alþjóðlegum myntum yfir tíma þarf að leiðrétta fyrir þróun verðlags í alþjóðlegu myntinni. Skoraði Heiðar á hagfræðingana að sýna fram á villur sínar, ellegar draga fullyrðingarnar tilbaka.

Nú segir Heiðar að í grein hagfræðinganna, sem kölluð var lokasvar, hafi ekkert svar verið að finna heldur hafi verið skipt um umræðuefni og hahgfræðingarnir farið að tala um kaupmátt launa á Íslandi.

Heiðar spyr hvers vegna hagfræðingarnir hafi tekið fram að þeir störfuðu hjá Seðlabankanum fyrst að þeir tóku fram að skoðanir þeirra endurspegla ekki endilega skoðanir Seðlabankans. „Hvers vegna sendu þeir ekki tilkynningu sína í eigin nafni? Og hvernig telja þeir sig geta ákveðið hvort að svar þeirra sé lokasvar eða ekki? Stunda þeir rökræðu eða einræður? Því miður benda greinar þeirra til að þeir treysti fremur á að nafn Seðlabanka Íslands nái að tortryggja staðhæfingar mínar en að röksemdir þeirra nái að hrekja þær,“ segir Heiðar Már enn fremur í grein sinni.