Embætti sérstaks saksóknara og sérstaks sóknara hafa fellt niður rannsókn á fyrirtæki fjárfestisins Heiðars Más Guðjónssonar í tengslum við skuldabréfaviðskipti hans síðla árs 2010.

Fréttavefur Morgunblaðsins greinir frá þessu í dag og vísar í tilkynningu Heiðars.

Í tilkynningunni segir Heiðar að hann hafi undirbúið málssókn á hendur bankanum.

Heiðar segir í tilkynningunni það hafa komið sér í opna skjöldu þegar Seðlabankinn hafi greint frá því að skuldabréfaviðskipti félags í hans eigu hafi verið til rannsóknar í bankanum. Viðskiptin segir hann hafa tengst kaupunum á Sjóvá en hann leiddi hóp fjárfesta sem gerðu tilboð í hlut Eignasafns Seðlabankans í tryggingafélaginu.

„Seðlabankastjóri, sem var hvorttveggja í senn æðsti yfirmaður gjaldeyriseftirlitsins og stjórnarformaður einkahlutafélags bankans, tilkynnti mér það persónulega og að viðstöddum mínum lögmönnum, að hann gæti ekki átt við mig eða mitt fyrirtæki viðskipti um hluti í vátryggingafélaginu vegna rannsóknarinnar,“ segir Heiðar.

Hann heldur áfram:

„Seðlabankanum og seðlabankastjóra var á þessum tíma ítrekað bent á, að hvorki rannsóknin né málsmeðferðin fengi staðist nokkra skoðun. Var andmælum í engu sinnt. Nú hefur verið staðfest að við höfðum á réttu að standa um þessa óskiljanlegu atburðarás. Sérstök ástæða er til að nefna í því sambandi, að niðurstaða ríkissaksóknara byggir m.a. á því, sem við höfum haldið fram, að þær reglur sem Seðlabankinn setti og beitti í málinu hafi verið í andstöðu við stjórnarskrá.“

Heiðar segir að vegna málsins hafi hann haft réttarstöðu sakborning hjá lögregluyfirvöldum að ósekju. Það hafi hamlað honum á fjármálamarkaði hér og erlendis og málið allt valdið honum og fyrirtæki sínu fjárhagslegu tjóni. Af þeim sökum séu lögmenn hans nú að undirbúa skaðabótamál á hendur bankanum.